Hörputorg og Kalkofnsvegur

Verkefnið hlaut verðlaun sem besta norræna almenningsrýmið, „best new public space“, á Arkitekturmässan í Gautaborg 24. október 2011.

Við hönnun lóðarinnar var unnið með skírskotun í sögu svæðisins frá því að vera ósnortin fjara þar sem lækurinn rann til sjávar yfir í það að vera hafnarsvæði. Spegiltjarnir skapa hólmatilfinningu og fjarlægð frá aðliggjandi umferðargötu.

Brýrnar yfir tjarnirnar eru í minningu bryggjanna sem stungust þarna áður í sjó fram. Torgið skiptist í þrjú svæði, aðkomutorg, fjölnotatorg og dvalarsvæði í krikanum sem byggingin myndar og snýr vel við sól og skjóli.

Svart malbik á meginfletinum undirstrikar hafnaryfirbragðið og gefur byggingunni þann rólega forgrunn sem hún þarf. Á regnvotum dögum breytist torgið í einn stóran spegil sem byggingin glitrar í.